Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Borað eftir vatni og jarðsjó við álvers-bygginguna í Helguvík
Föstudagur 5. febrúar 2021 kl. 07:43

Borað eftir vatni og jarðsjó við álvers-bygginguna í Helguvík

Nú er unnið að borun eftir grunnvatni og jarðsjó á lóð álvers Norðuráls í Helguvík. Samherji fiskeldi og Norðurál undirrituðu viljayfirlýsingu seint á síðasta ári þess efnis að Samherji kaupi lóð og fasteignir á svæðinu af Norðuráli og nýti undir laxeldi á landi.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, greindi frá því að Samherji fiskeldi sé búinn að verja tugum milljóna króna í boranir á undanförnum vikum. Líklegt er að niðurstaða frumathugunar er snýr að annars vegar magni og hins vegar hitastigi grunnvatns og jarðsjávar á svæðinu muni liggja fyrir um eða upp úr næstu mánaðamótum, en segja má að verkefnið standi og falli með því að þessi ákveðni þáttur sé viðunandi, segir í frétt Markaðarins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í sömu frétt segir að þegar og ef landeldið við Helguvík verður að raunveruleika gera áætlanir Samherja ráð fyrir því að slátra allt að tuttugu tonnum af laxi daglega og senda á erlenda markaði með flugi. Það þýðir að árleg framleiðslugeta gæti orðið yfir 7.000 þúsund tonnum, ef slátrað er allflesta daga ársins. Núverandi framleiðslugeta Samherja í laxeldi er um 1.500 tonn samkvæmt heimasíðu Samherja. Því myndi eldið í Helguvík margfalda framleiðslugetu fyrirtækisins.

Samherji starfrækir þegar fiskeldi á Suðurnesjum. Fyrirtækið rekur tvær áframeldisstöðvar bleikju skammt frá Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Þar að auki rekur Samherji vinnslu í Sandgerði, þar sem bleikju er slátrað og pakkað í neytendaumbúðir.